<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, maí 28, 2004

Jæja já! 28.maí hefur skollið á!, og það þýðir ekkert annað en að skóla mínum er slitið.. og það fyrir fullt og allt!

Útskrift úr Hvassaleitisskóla var nú einmitt í dag kl.14!, Sigrður Þór fór með frábæra ræðu, og eg get svoleiðis farið með það að nánast hver einn og einasti Tíundibekkingur var með grátstafina í kverkunum þegar hann las þetta, alvöru blandaða góðum húmor. Virkilega ánægður með þetta! Síðan voru nokkrir góðir kennarar prýddir bókum vegna brottfara þeirra frá skólanum, þar á meðal Haukur sem er að fara á eftirlaun.. ég býst við að hann endi með sögustund í ríkissjónvarpinu á laugardagsmorgnum, og verður hinn nýji 'afi' rúv.. einhvað verður maður að redda þessu ef fjölmiðlafrumvarpið verður tekið í gildi!..
Næst færði 'gamli' skólastjórinn minn, Pétur Orri, nokkrar bókagjafir fyrir námsárangur.. sem féll til Kristrúnar og Bjargar, og áttu þær það svo fyllilega skilið!.. og svo voru gefin verðlaun fyrir dönsku og Lóa hreppti þau með sæmd. Síðan en ekki síst voru gefin verðlaun fyrir 'ástundun og framfarir í námi', og þau verðlaun hrepptu Anna Margrét og enginn annar en hann Jón.. jámm ánægður með þetta:)

Eftir þetta formlega var farið yfir í safnaðarheimilið þar sem var boðið upp á kökur og kók fyrir útskriftarnema og Árbókin ógurlega var afhent! og þótt ótrúlegt megi virðast þá fannst mér hún alveg nettþétt flott! miðað við það sem eg bjóst við þeas og var vel peninganna virði!
Meiraðsegja svo sniðug að það var hægt að rita falleg orð til hvers og eins á nokkrar línur, og voru allir að skrifa einhvað fallegt til hvers annars fram eftir degi og spjalla.. það var fínt:) síðan þegar maður les þetta líður manni svona æðislega vel og líður eins og maður sé svaðalegt celeb, en ég meina það er bara gott, sorgleg stund.. *dramadramadrama*;)

Og jújú þótt ótrúlegt sé þá varð maðurinn sextán í gær! og kominn með leyfi til að byrja læra á bíl! Ánægður með það, byrja í sumar ef allt gengur eftir!..
Eyddi afmælisdegi mínum í Nóatúni í Austurveri frá 3-9 að vinna á kassa!, og þótt ótrúlegt sé þá var þetta held eg bara með betri afmælisdögum sem eg hef átt.. enginn stal hjólinu mínu og ekkert kjaftæði!:)

Fékk nokkrar ómótstæðilegar afmælisgjafir frá fjölskyldunni:

Jeff Buckley - Sketches For (My sweetheart the Drunk) - Langþráður geisladiskur sem ég fékk loksins frá móður minni og föður.
Anatomy Drawing School - eftir András szunyoghy og György fehér - einnig langþráð, anatomy bók.. einnig frá múttu og föður mínum
Síðan síðast en ekki síst, fékk ég 500 kall og 2sleikjóa frá litlu systur minni! og var það sko ekki amarlegt!:)´

Ég fékk einnig útúr vorprófunum í dag og voru einkunnirnar bara ekkert það amalegar, en ég endaði með að fá 8,58 í meðaleinkunn, og bara alveg ágætlega ánægður með það:)
Þá er bara að bíða eftir samræmduprófseinkunnunum, sem ég fæ líklegast næsta fimmtudag:) og þarf líka að fara klára velja skóla!, annan daginn aðhyllist ég að versló en hinn daginn er það Hamrahlíðin!.. í dag er hinn dagurinn..:)

mánudagur, maí 17, 2004

Já meðan ég man þá háttvirtur Páll Máni afmæli í dag! Kominn á æfingarakstursaldurinn og ég held einfaldlega að við ættum að hrópa þrefalt húrra fyrir því!

- Án minnsta tillits til rússneskrar rúllettu, og aðstandenda hennar, þá hef eg ákveðið fara loks að gera í því að planta einhverju í auða reitinn sem er merktur undir nefninu "Sketch", og því að leyfa heiminum að sjá brot af því sem eg hef verið að gera.

Prófavikan byrjuð og allt í gúddinu.. reyndar gekk enskuprófið ekki ýkja vel og ég fell líklegast um 2 heila vegna lélegra skila á bókaumsögnum síðustu mánuði.. þeas eg hef ekki skilað einni eftir jól svo að ég viti.. vonum bara að lítill hjálparengill hafi gert þetta fyrir mig..
Stærðfræði á morgun, og ætli maður taki það ekki bara með trompi, eða vonum það..
Kæruleysið hefur verið í sögulegu hámarki síðan samræmduprófin voru búin.. þó svo að eg hafi tekið enskuhlustun og söguna með trompi, þá er td sagan sem eg þarf minnst á að halda því ég tók það ekki einu sinni á samræmdu.. en það er saga frá öðrum bæ..

Eins og þið lesendur góðir, sem eruð í sögulegu lágmarki þessa stundina.. þá einfaldlega getið þið liklegast lesið útúr þessu að eg hef ekkert að segja, jahh nema ákvörðun mína um sketchfærslur inná síðuna, en það hefur verið í undirbúningi síðan síðan opnaði.. þá má orða það þannig að iðnaðarmennirnir sem áttu að sjá um að koma þessu inná síðuna hafa verið í kaffihléi síðan síðan opnaði.. en nú fer kaffibrúsinn að leka sína síðustu dropa svo þetta kemur allt með kalda vatninu held ég baraðstað..! hrópum húrra fyrir því!!

föstudagur, maí 14, 2004

Ég á varla til eitt aukatekið orð yfir hversu feginn ég er að vera búinn með The Samræmdupróf, sem herjuðu yfir Tíundubekkinga landsins nú fyrir skömmu, og ég hreinlega rétt vona að mér hafi gengið vel, en vona það ekki hvortiðer allir?

Núna rétt í þessu, þeas fyrir uþb 2 klst, þá fékk ég 2 bréf í hendurnar, sem bárust með póstinum. Annað þeirra gerði mig svo ánægðan að ég varla vissi hvað á mig stóð veðrið, sólskinið svoleiðis blómstraði innan í mér (já ég hef innvortis-sólskin, who doesn't?). Það var réttara sagt bréf frá einhverju bankaútibúi sem ljáði mér það að ég ætti inni orlof sem mætti taka út fyrir þrem dögum, eða 11.maí, og eg hoppaði kæti mína af gleði(reyndar haggaðist ég ekki, ég sat hér í tölvustólnum í mínum makindum eins og venjulega). Var þetta uppá ekki meira né minna en 5229kr! Ójá, það er feiknar peningur fyrir mann í minni stöðu, þeas blankri stöðu svo það er ágætt, veit reyndar ekki hvort eg fari beint og eyði þessu, það er kannski ekki það skynsamlegasta sem eg gæti gert.
En á aðra höndina fékk ég líka annað bréf, sem ég minntist einnig á þarna fyrir ofan, og var það frá Verslunarskóla Íslands, boð í skólann og bæklingur um hann, ss. allt tilheyrandi. Fór einnig á vefinn sem mér var gefinn upp í bréfinu og tók þátt í einhverjum leik, um lófatölvu og niðurfellingu skólagjalda inn í versló, þá líklegast ef eg læt sjá mig þar.
Já það er nefnilega þannig að nú fer að styttast í útskrift mína úr Barnaskóla og ég þarf að fara að fóta mig í lífinu. Byrjunin verður líklegast að sækja um skóla, og ég er ekki enn kominn með það á hreint hvað ég ætla mér að gera.. en það kemur allt með kalda vatninu!, ætla ég rétt að vona..
Hugur minn hefur síðan um daginn þónokkuð reikað um og komið oftar en einu sinni við á laugum , menntaskólanum á laugum!, örugglega rosalegur skóli og ég held að leið mín liggji gjörsamlega þangað! norður í sveitastemninguna á heimavist og bara allt í góðu!.. þó svo að eg reyni að halda huganum hér svona innan borgarmarkanna.

Í dag lék ég mér með svínshjörtu og handfjatlaði svínslungu.. hvursu spennandi er líf mitt orðið eiginlega? Ætli ég verði ekki bara læknir, þá skurðlæknir, og skeri mikið og skoða líkama, innanverða nánar tiltekið.
En annars svona fyrir fólk sem skilur ekkert hvað ég er að fara, þá var Tíundibekkur að kryfja svíns-hjörtu og -lungu, og þar sem eg tróð mér inní einhvern stelpuhóp eftir að hafa komið aðeins eftir skiptingu í hópa, þá fékk ég, sem betur fer, það hlutverk að misþyrma líffærum dýrsins, eða svínsins. Hann hafði nýlega fyrir dauða sinn líklegast borðað einhvað, því það var einhvað hvítt drasl ennþá í barkanum eða einhvað á þá leið. Síðan fann ég jarðarber og lifur inní hjartanu en það er víst önnur saga..
Annars var þetta feiknar merkilegt að skoða þetta og hvet alla til að skoppa niður í sláturhús og kaupa sér lungu og hjarta úr svíni, og skoða það af ýtrustu nákvæmni.. en nóg um það..

Annars bara búinn að vera hangsa meira en hægt er, enda ekki fengið helgarfrí í mánuð!, loksins kom þetta.. og þá notaði eg bara tímann til að taka til í músík möppunum mínum og gerði þetta snyrtilegt og sætt, svona mestan partinn allaveganna..

Kannski maður hafi meiri tíma og áhuga á því að fara blogga núna eftir þessi samræmdupróf.. þó svo að prófin séu að byrja aftur á mánudag, þeas vorprófin.. byrjuðu samt eiginlega í gær með enskuprófi og söguprófi í dag en formleg prófvika byrjar á mánudag.. og þá er aftur enskupróf svo að ég þarf ekki að nota helgina í að læra.. þetter svoddan lúxus..:)

föstudagur, maí 07, 2004

- Vildi einungis benda á þennan link hér..

Annars hafa bara samræmduprófin riðið mér að fullu síðustu vikuna og er eg kominn með slétt nóg.. en 2 próf eftir og ætli maður lifi þetta ekki af..

laugardagur, maí 01, 2004

- "Já ég tók þig í gegn", sagði Jón við bloggið sitt, og hélt áfram að vera eins "dapur" og hann er venjulega. "Ég breytti meiraðsegja litunum á athugasemdakerfinu" hélt hann áfram, "Og tileinkað hinum hamingjusama neytanda, þá komst ég að því að þú kemur betur út í IE en Mozilla". Hann hugsaði um leið að hann vonaði að enginn myndi spyrja hann hvað hann meinti með þessu síðarmælta, það hafði verið nóg af þeim umræðum í Netdagbókinni hans Hlyns.
Jón, kallaður Nonni af sínum nánustu, var miðlungsmjótt borgarbarn, fæddur og uppalinn á malbikinu. Á unga aldri kunni hann ekki við sig innan borgarmúranna, og langaði mest af öllu að flytja til útgerðarþorps sunnan við Þorbjörn, fjall á Reykjanesinu, þar sem faðir hans hafði uppalist frá 5ára aldri. Ekkert varð að þessum draumum, og var þá það hálfa ekkert annað en hellingur, því ef að svo hefði farið, hefði ekki ræst úr drengnum eins og raun varð.
Rætur hans lágu einnig norður yfir heiði, þar sem Móðurmóðir hans og fleiri ættingjar áttu heimkynni. Vatnsnesið varð honum mjög kært, og var hann staðráðinn í því að verða sveitapiltur hjá ömmu sinni þegar hann hefði aldur til. Nonni hefði eiginlega ekki haft neitt annað en gott af þeirri lífsreynslu, en það fór þannig, fyrir miður, að Afi hans veiktist og var þá ákveðið að flytja til nærliggjandi þorps á sama nesi.
Nonni hélt sig einfaldlega við þá stefnu að vera borgarbarn, og virkaði það ágætlega á hans uppkomu árum. Hann hafði ekki getað ýmundað sér að svo mikil mengun og malbik, og sama og engar þúfur né móar, gæti verið svo gott fyrir ungan dreng til að vaxa úr grasi, eflast og verða að einhverju sem engum hefði dottið í hug að hann hefði getu eða hæfileika til.
Hann hafði viljastyrk, hann hafði getu og hæfileika, smekk, skeið og skóflu, og gat gert hvað sem var hann vildi! Komið var að lokum vals. Hann hafði tvo möguleika...
"Á ég að sitja hér og halda áfram að einhverfast og tala við þig bloggi?" sagði hann, "Eða ætti ég að fara að gera einhvað að viti? Kannski 11-11 ferð sé málið bráðum. Allavega fyrir 11!". Hann hefði getað haldið áfram að rugla út allt kvöldið en þar sem hann hafði ekki minnstu vitund afhverju hann var að tala við tölvuna þá ákvað hann að hætta því. Hann hafði skrifað niður óskýr og stutt æviágrip manns sem hann varla þekkti og taldi að eiganda þessa lífs þætti það ekki þæginlegt að einhvur ókunnugur myndi pikka líf hans inn á lyklaborðinu, inn í tölvuna, og síðan færa það yfir á hið almenna net, þar sem allir gátu lesið um ævi hans og hugsanir. Eigandinn átti það hreynlega ekki skilið! Hann hafði ekki gert Nonna neitt.
Nonni hafði einungis heyrt um þennan mann í útvarpinu og lesið um hann í blöðum. Honum fannst hann hafa gert honum grikk og gert hann gjörsamlega berskjaldaðann. Honum fannst hann samt þekkja hann betur en hann hélt, en þar sem hann vissi ekki einu sinni hans rétta nafn þá taldi hann ekki svo geta verið..!
"Jæja ég er farinn út í 11-11 Bloggi áður en ég tapa mér úr sykurleysi, eins og eg hef verið að gera alla þessa færslu, heyrí þér eftir smá"... Og þannig varð tölvan, er hafði hlotið nafnið Alfreð Maðkur við fyrstu kynni, viðskila við Jón, í fyrsta skipti í langan tíma..

***
Jón varð meira en furðulostinn þegar hann kom heim úr för sinni í 11-11, og las hvað hann hafði skrifað inn í netdagbókina sína. Hann gat ekki ýmundað sér það hversu háður sykri hann væri að hann gæti velt uppúr sér annari eins vitleysu þegar að sykur vantaði í líkama hans. Nú þegar hann var orðinn heill á geði með stóran nammipoka fyrir framan sig og fullt glas af gosi, sá hann nokkuð undarlegt. Hann hafði verið að skrifa um sjálfan sig en þó bætt því við og aðeins ýkt það upp að hann væri sjálfur svo æðislega æðislegur að enginn gæti staðist hann. Hann átti ekki til orð yfir það sem hann hafði gert, þetta var syndsamlegt í augum hans. Jón hefði aldrei gert svona lagað ef hann hefði verið með öllum mjalla! Hann komst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að hann væri meira en kolgeðveikur og átti ekki skilið viðstatt í þessum heimi eina mínútuna lengur.
"Ég skil ekki hvað hefur hlaupið í mig netdagbók, ef það er einhvað sem ég myndi aldrei láta koma útúr mínum munni er það að vera setja mig á svo háan stall að ég ætti mér engan líkan!", æpti Jón á tölvuna í einhverju bræðiskasti eftir að hafa komist að því að hann væri svo háður sykri og í leiðinni veikur á geði, "Ég meina hvaða heilvita maður hér á jarðríki talar við tölvuna sína!! Hvað þá öskrar á hana!!", hélt hann áfram að öskra. Aldrei hafði skap hans orðið eins vont og nú var á komið, hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð! Hann skar sig, brenndi, steikti, grillaði og snæddi, en vissi enn ekki hvað í fjandanum hann átti að gera, ekkert virkaði, ekkert.....

This page is powered by Blogger. Isn't yours?